Myndband og dagbókafærsla frá Kirkjubæjarklaustri 24. maí

24. maí fór ég að hjálpa til með björgunarsveitinni á Kirkjubæjarklausti, þar sem allir blóta í sand og ösku og eru öskuillir.. nei, ekki alveg hehe.. eiginlega þvert á móti. Bændur voru ótrúlega duglegir og jákvæðir. 

Dagurinn byrjaði snemma, eða klukkan 04.15 var ég komin framúr og byrjaði að finna mig til fyrir langan og strembinn dag. Það er mjög mikilvægt að hafa næga orku og því eldaði ég mér gúrme hafragraut með kanill og eplum. Því næst var pakkað helstu hlutum sem maður þurfti í lítinn bakpoka. Það var orð á því að ég ætti besta persónulegan búnað við eldgosaðstæðum en þessi "búnaður" innihélt: 
-Góð öndunargríma, sem ég á síðan ég var að vinna í álverinu.
-Skíðagleraugu
-makeup remover-klúta.. til að þurrka öskuna reglulega í framan úr sér (sveitin okkar var áberandi hreinust hehe)
- bréfþurrkur 
-Vaselín og aloevera varasalvi nota sem varasalva þar sem varirnar þurrkast í öskunni, einnig gott að setja á sár til að reyna koma í veg fyrir að askan og önnur óhreinindi komast í sárið..
-Augndropar því það er endalaus aska sem fer í augun og þurrkar þau bókstaflega upp.
-Hælsæris-gerviskinn.. það er ömurlegt að vera með hælsæri!
Einnig voru fleiri krem með í för eins og handaáburgður, aloevera gel, verkjatöflur og hvaðeina.. og af sjálfsögðu var tekið nesti með sem var aðalega ávextir, orkustangi og 2l af vatni.. 

Ég er líka extra viðkvæm fyrir öskunni sem er kannski ástæðan fyrir því að ég var með svona mikið með mér. 

Rétt fyrir 5 var ég svo sótt og brottför frá Selfossi kl.5.. Sendir voru 2 hópar eða sex manns frá Björgunarfélagi Árborgar. Þegar við komin á Klaustur um sjö leitið leið ekki á lögnu að við fengum fyrsta verkefnið sem var að kíkja á tvo bæji í grennd við Klaustur og kanna stöðuna á fólkinu þar. Hvort það þyrfti aðstoð, hvort það væru gestir hjá þeim og hvernig staðan væri á dýrunum hjá þeim.  
Húsfreyjan á öðrum bænum var nýbúin að sópa saman ösku úr forstofunni hjá sér í hálfan heimilispoka (stór glær plastpoki). Allt var í sómanum hjá þessum tveim bæjum og þurftu ekki frekari aðstoð. Verkefni 1 lokið.

Næsta verkefni var að aðstoða bændur á bæ rétt austan við Kirkjubæjarklaustur að ná í 4 hesta sem voru út í haga. Bóndinn byrjaði á að segja við mig hversu ánægjulegt það var að vakna í morgun og það var bjart þó það sæist ekki langt var allavega ekki niðamyrkur eins og hafði verið dagana á undan. Þegar við nálguðumst túnið sem hestarnir voru á fór skyngið að versna töluvert, stundum var skygnið nokkur hundruð metrar og stundum 1 meter. Þegar við fundum svo hestana þá voru þeir mjög hræddir og svo var brjálað rok sem var ekki til að bæta ástandið.. Þegar við komumst nálægt þeim þá hlupu þeir í burtu út í öskuna og þá þurfti að finna þá aftur. Eitt skiptið vorum við alveg komin að þeim og múlinn var að fara koma á þá kom hressileg vindkviða og þeir fældust og stukku yfir girðingu og yfir á annað stikki. Eftir nokkrar tilraunir til viðbótar ákváðum við að reka þau bara heim. Það var ekki hægt að tala við þessi grey sem voru rosa hrædd,kvekt og örugglega svöng og þyrst í þessum öskubyl. Askan var greynilega búin að fara illa í augun á þeim og mátti sjá svarta rák sem hafði myndast og lá frá auganu og niður kjálkann. Það tók tíma en heim komust hestarnir og því verkefni 2 lokið. 

Við ætluðum þá að fara að fá okkur að borða og vorum ný komin inn í Skaftárskála þegar við fengum nýtt verkefni. Byggingarefni var byrjað að fjúka frá gistiheimili sem verið var að byggja við,. Þetta verkefni var fljótt afgreitt. Tilraun númer tvö til að fá sér að borða. Þegar meðlimir hópsins voru nýbúnir að fá matinn sem þeir pöntuðu kom nýtt verkfni. Verkefnið var að smala saman kindum á bæ í Landbroti. Því gúffuðu menn í sig matnum og restin tekin með í poka. Heppilegt fyrir mig að vera með nesti sem var lítið mál að borða á leiðinni. Margir hópar voru einnig sendir á þennann bæ og var byrjað á því að reisa upp girðingu til að loka af lítið svæði við fjárhúsin sem við áttum að reka kindurnar í. Smölunin gekk mjög vel þrátt fyrir að einstakar kindur hoppuðu yfir girðingu eða lömb hlupu í vitlausa átt. 

Á leiðinni á Klaustur komum við á einum bæ og leystum þar annað verkefni sem var að aftengja niðurföll eða frárennsli frá þakrennum. Þar sem þær vilja stíflast þegar það er mikil aska. Ekki vorum við lengi að losa allar þakrennur og þá fengum við smá pásu. í hádegismat var elduð handa okkur dýrnindis kjötsúpa. Eftir smá pásu var komið nýtt verkefni sem var að fara aftur að bænum austan við Klaustur, þar sem við smöluðum hrossum fyrr um daginn, en nú voru það kindur sem þurfti að ná á hús. Það er ekki hægt að segja annað en að kindurnar áþeim bæ hafi farið aðeins verr úr öskunni en í Landbroti, þar sem mjög margar kindur voru blindar af öskunni.Enda búið að vera meira öskufall þar. Þær löbbuðu eða hlupu bara einhvert, oftar en ekki á girðingarnar eða á okkur mannfólkið sem var að smala þeim. Það þýddi ekkert að hreyfa sig snögglega eða veifa höndunum. Maður þurfti að góla til þess að þær sýndu einhver viðbrögð. Ein kindin hljóp og hljóp í endalausa hringi svona sirka 100m stóra. Hún var á endanum handsömuð og dregin áfram því greyið vissi ekkhvert hvert hún átti að fara. 
 Önnur kind hljóp alveg á fullu og ofan í djúpan skurð. Það var ekki mikið vatn í þessum skurði en mjög mikil drulla sem hún sökk í. Einn björgunarsveitamaður stökk strax á eftir henni og hélt höfðinu upp úr. Ég kom svo hlaupandi eftir að vera ný búin að hlaupa á eftir annari kind sem var að hlaupa í burtu og það er hvorki hollt né auðvelt að hlaupa mikið í þessari ösku þó maður sé með grímur. Það er líka mjög erfitt að anda með grímuna. Enda var ég með hausverk mest allan daginn. En þegar ég kom ofan í skurðin byrjuðum við að toga kindina sem var frekar mikið föst og hún var ekkert að hjálpa til, heyrfði sig ekkert. Hún var að gefast upp. á endanum náðum við henni upp og þá þurftum við að draga hana algjörlega áfram, hún vildi ekki labba. Þá var önnur rolla sem var að hlaupa í vitlausa átt og ég byrjaði að hlaupa fyrir hana en bóndinn sjálfur náði henni á endanum. Hún var líka alveg búin á því og þegar lambið hennar sem var smá frá og var að jarma og jarma þá gaf hún ekki einu sinni frá sér jarm. Þessar tvær rollur voru settar á fjórhjól og fluttar að bænum enda voru þær búnar að hlaupa talsverðan spotta frá bæinum og ekki hægt að draga þær alla leið.
 Á meðan beðið var eftir fjórhjólinu skoðuðum við augun í kindinni og inn í augunum var þykkt lag af drullu eða ösku.. augun voru rauðleit og dökk rönd lá frá auganu og niður að kjálka líkt og hjá hestunum fyrr um daginn. Bóndinn sagði að á næsta bæ voru kindurnar teknar inn deginum áður og voru þær líka svona illa blindar en í dag voru þær í lagi og var hann bjartsýnn á að þetta mundi lagast. Einnig sagði hann að hann hafði búist við því að þetta væri allt saman seindautt eftir þetta gríðalega öskufall sem var búið að vera. Ég sá engar dauðar kindur og aðeins eitt lamb en nokkrar sem voru alveg að gefast upp og því greinilegt að ekki hefði mátt bíða mikið lengur með að setja þær inn. 

Þá tók við mjög rólegur tími og fengum við brauð,kökur og annað sem var boðið uppá fyrir björgunarsveitafólkið. Næsta verkefni var að fara með 4 vatnstanka að vatnsbóli sem við náðum í hreint vatn og keyrðum með það að Fossi. Þar skildum við eftir 3 tanka en þetta vatn var hugsað fyrir skepnurnar. Síðasti tankurinn var fluttur aftur á Klaustur og tilbúin ef einhverjum vantaði. 

Ekkert verkefni kom og við sátum bara og biðum. Á endanum vorum við send út í skóla þar sem þurfti að þrífa svo hægt væri að flytja aðstöðuna úr félagsheimilinu yfir í skólann. Það var síðasta verkefnið okkar þennan daginn og við vorum lögð af stað fljótlega upp úr 19. Eftir 12 klukkustuna verkefninavinnu á Klaustri. 

Það var gott að koma aftur á Selfoss og anda að sér hreina loftinu og þurfa ekki að ganga um með grímu. Fara í langa og góða sturtu og svo í bað og smúla sig aftur, það var erfitt að ná allri öskunni í burtu. Mikið var gott að leggjast niður og hvíla sig. Ánægð með daginn. Ég er svo heppin að vera í björgunarsveit og fá að hjálpa fólki í aðstæðum sem þessum. Manni líður mun betur ef maður getur hjálpað eitthvað til en ekki verið bara heima og hugsa "aumingja þau". En við getum farið til þeirra og verið að hjálpa þeim í þessum ömurlegum aðstæðum og farið svo heim í hreint loft og hrein hús. Þau búa þarna. Ár síðan að það gaus síðast á svipuðum stað. Mér finnst þessir bændur algjörar hetjur!
 
Hér kemur smá myndband með myndum og myndböndum sem ég tók..
 
Síðan ein mynd af mér þegar öskufallið var töluvert heima í sveitinni og ég var vel útbúin fyrir það:
 
Elska svipin á Vin á þessari mynd..! 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband